20.7.2008 | 20:50
Uppihvað ?
HJÓLASTÓLASVEITINA skipa þau Ágústa Skúladóttir, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, Guðríður Ólafsdóttir, Örn Sigurðsson og Leifur Leifsson.
Á haustdögum 2007 sóttu þau ásamt fleirum námskeið í uppistandi hjá Halaleikhópnum og kennari var Ágústa Skúladóttir leikstjóri og fyrrum uppistandari.
HJÓLASTÓLASVEITIN var fulltrúi Halaleikhópsins á einleikjahátíð Bandalags íslenskra leikfélaga í Borgarleikhúsinu í október 2007 og vöktu mikla lukku hjá gestum og mikið lof gagnrýnanda hátíðarinnar.
Í framhaldi af námskeiðinu, kaffileikhúskvöldum Halaleikhópsins og leiklistarhátíð Bandalagsins hefur HJÓLASTÓLASVEITIN vakið mikla athygli m.a. á fundi kvennahreyfingar ÖBÍ, jóladagskrár Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og á Hvatningarverðlaunum ÖBÍ þann 3. desember sl. Sveitin fór einnig í ferð til Akureyrar 19. desember og var með uppistand í fjórum grunnskólum. Þar sem HJÓLASTÓLASVEITIN hefur fengið góð viðbrögð og mikinn meðbyr var ákveðið að stofna sjálfstætt félag.
Markmið og tilgangur HJÓLASTÓLASVEITARINNAR
Þann 11. janúar 2008 varð HJÓLASTÓLASVEITIN sjálfstætt félag þar sem tilgangur félagsins er að skemmta fólki með uppistandi víðs vegar, innan lands sem utan. Vekja athygli á málefnum hreyfihamlaðra og annarra fatlaðra í samfélaginu og efla heilsu allra landsmanna með hlátri.
HJÓLASTÓLASVEITIN var með Uppihvað? í Hafnarhúsinu á Vetrarhátíð 7. febrúar sl. þar sem sveitin sló í gegn, troðfullt út úr dyrum og sumir gestir þurftu frá að hverfa. Og einnig var sveitin fengin til að vera á hláturdögum í Borgarleikhúsinu í lok maí sl. Ljóst er að það er alger nýlunda og frumkvöðlastarfsemi sem HJÓLASTÓLASVEITIN er að framkvæma um þessar mundir. Sveitin hefur það að markmiði sínu að troða upp reglulega og stefnan er ferð um landið þar sem tekin verður upp heimildarmynd um verkefnið í leiðinni.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.